Frá ritstjórum: Menning og hreyfanleiki

  • Ólafur Rastrick Háskóli Íslands
  • Arndís Bergsdóttir Háskóli Íslands
  • Thamar Melanie Heijstra Háskóli Íslands

Abstract

Viðbrögð stjórnvalda um heim allan til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar hafa haft víðtæk áhrif og þau hafa meðal annars fært okkur heim sanninn um hversu hreyfanleiki fólks frá einum stað til annars er snar þáttur í menningu samtímans. Víða um lönd voru settar hömlur á ferðir fólks, landsvæði, bæir og borgir lokaðar fyrir umferð til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins, og jafnvel komið á útgöngubanni. Flughafnir sem áður voru iðandi af mannlífi alla daga ársins tæmdust nær fyrirvaralaust og eins og hendi væri veifað hafa þessar umferðarmiðstöðvar samtímans orðið að draugabæjum. Sú hversdagslega athöfn að bregða sér bæjarleið landa og heimshluta á milli í ýmsum erindagjörðum var skyndilega miklum takmörkum háð. Samneyti og öll hreyfing þar sem annað fólk var á ferli varð mögulega lífhættuleg og með tveggja metra reglunni fékk nálægð við annað fólk nýja merkingu. Hreyfanleiki fólks, sem er svo ríkur þáttur í því hvernig nútíminn er skilgreindur, var skyndilega skertur með nýjum hætti. Skorður við tilfærslu fólks frá einum stað til annars hafa raunar um langt skeið verið einkenni nútímans, eins og hin hliðin á hreyfanleikanum. Stór hluti mannkyns hefur átt harla litla aðild að þessari menningu hreyfanleikans. Þótt ýmsir sæti færis eða hrekist til að flýja heimahagana eru margir eftir sem áður fjötraðir við átthagana af fátækt, múrum og mærum. Það sem er nýtt á vormánuðum 2020 er að með viðbrögðum við veirunni hefur hinn betur stæði hluti heimsbyggðarinnar líka verið kyrrsettur með ófyrirséðum afleiðingum fyrir heilu atvinnugreinarnar og efnahagslíf ríkja.

Viðfangsefni þessa sérheftis Íslenska þjóðfélagsins er menning og hreyfanleiki. Til heftisins var efnt af öndvegisverkefninu Hreyfanleiki og þverþjóðlegt Ísland (Mobility and Transnational Iceland) sem var styrkt af Rannís 2016–2019 og stýrt af Kristínu Loftsdóttur, Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni og Unni Dís Skaptadóttur, en þau eru öll prófessorar við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Áður hefur á vettvangi Íslenska þjóðfélagsins birst sérhefti undir merkjum öndvegisverkefnisins undir yfirskriftinni „Íslenskur vinnumarkaður – erlent starfsfólk“ (2019: 10,2) þar sem sjónum var beint að útlendingum sem vinna hér á landi, eins og nafnið bendir til. Í því hefti sem hér birtist eru fjórar greinar sem með ólíkum hætti taka á birtingarmynd hreyfanleikans í menningu nútímans með greinargerðum um afmarkaðar rannsóknir á hreyfingu fólks og fyrirbæra innan Íslands og milli Íslands og umheimsins. Fræðilega og aðferðalega sækja þessar rannsóknir sem hér eru kynntar í gjörólíkar fræðahefðir en saman vekja þær athygli á því hvernig ólíkar nálganir geta breikkað sýn okkar á fræðileg viðfangsefni. 

Katrín Anna Lund og Gunnar Þór Jóhannesson, prófessorar í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, ríða á vaðið Í greininni „Síkvik menning á mörkum hins meira en mennska: Ferðamennska, söfn og staðir“ rýna þau í samband menningar, náttúru og ferðamennsku í samtímanum. Þau taka þá viðteknu sýn innan ferðamálafræði sem greinir skýrt að menningu og náttúru til gagnrýninnar skoðunar og leitast í því við að fanga þann hreyfanleika og sköpunarkraft sem felst í samfléttun náttúru og menningar sem virkra gerenda. Með því að taka fyrir Galdrasýninguna á Hólmavík draga þau fram hvernig ferðamennska og áhrif hennar verða til í síkvikum tengslum milli hins mennska og hins meira-en-mennska. Í umfjöllun um sýninguna leggja þau áherslu á að greina hvernig fortíð og nútíð og svið náttúru og menningar fléttast saman í framsetningu hennar og leiða með því móti fram samband hreyfanleika Stranda í tíma og rými.

Samband tíma og rýmis er á vissan hátt einnig til umfjöllunar í grein Ólafs Rastrick, dósents í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Grein hans ber yfirskriftina „Af erlendu vogreki: Íslensk þjóðmenning, útlend ómenning og viðtaka „óæskilegra“ menningaráhrifa“ og fjallar um viðspyrnu í íslensku samfélagi við menningarfyrirbrigðum sem á einn eða annan hátt hafa verið skilgreind sem framandi og óvelkomin í íslensku samfélagi, allt frá fyrstu viðtökum djass á þriðja áratug tuttugustu aldar til tölvuleikja í samtímanum. Ólafur rekur nokkur dæmi um hvernig háð hefur verið, fyrir hönd íslenskrar menningar, varnarbarátta gegn óæskilegum áhrifum sem vilja skjóta rótum í samfélaginu með ófyrirséðum afleiðingum. Hann greinir innlend viðbrögð við „útlendri ómenningu“ í ljósi kenninga um siðafár og úrkast og skoðar virkni viðspyrnunnar í að skapa ímynd um heildstæða og heilbrigða íslenska menningu.

Afstæður þess innlenda og þess útlenda er einnig viðfangsefni greinar Erlu Rúnar Guðmundsdóttur, Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur og Magnúsar Þórs Torfasonar, en þau tvö síðarnefndu eru dósentar í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Greinin ber yfirskriftina „Iceland Airwaves sem samskiptavettvangur og farvegur hugmynda“. Í rannsókn sinni beina þau sjónum að tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves og kanna að hvaða marki og með hvaða hætti hún hefur náð markmiðum um að koma íslenskri tónlist á framfæri á Íslandi og erlendis, að stuðla að fjölbreytni í menningar- og tónlistarlífi Íslendinga og að fjölga ferðamönnum til Íslands utan háannatíma. Í greininni draga þau fram hvernig það að skapa list og njóta er þverþjóðlegt um leið og það byggir á hinu sérstæða og staðbundna.

Síðasta greinin horfir til hreyfingar Íslendinga út fyrir landsteinana og samskipta þeirra við heimamenn á framandi slóðum í rannsókn á menningarlegri aðlögun starfsmanna íslenskra fyrirtækja erlendis. Greinin byggir á rannsókn Svölu Guðmundsdóttur prófessors, Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur dósents, báðar í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, og Ragnhildar Lenu Helgadóttur, MS í mannauðsstjórnun. Greinin ber yfirskriftina „Upplifun og reynsla íslenskra útsendra starfsmanna í fjarlægum löndum“. Frá sjónarmiði mannauðsstjórnunar rekur greinin mikilvægi þess að menningarleg aðlögun útsendra starfsmanna takist sem best til að starf þessara dýru starfsmanna skili tilætluðum árangri. Í greininni er skoðuð reynsla og upplifun íslenskra útsendra starfsmanna í nokkrum löndum af aðlögun að lífi og starfi meðal annars í Afríku og Asíu og skoðað hvort og hvernig stuðningur er veittur af hálfu vinnuveitenda þeirra hér á landi.

Ólafur Rastrick, Árndís Bergsdóttir & Thamar Heijstra

 

 

Published
2020-07-02
How to Cite
Rastrick, Ólafur, Bergsdóttir, A., & Heijstra, T. (2020). Frá ritstjórum: Menning og hreyfanleiki. Íslenska þjóðfélagið, 11(1), 1-2. Retrieved from https://www.thjodfelagid.is/index.php/Th/article/view/184